News
27.05.2009 - Uppbygging fuglaferðaþjónustu á Suðausturlandi
 

Uppbygging fuglaferðaþjónustu á Suðausturlandi

Í vetur hefur hópur aðila frá Djúpavogshreppi og úr Sveitarfélaginu Hornafirði hist og markað stefnu í
uppbyggingu fuglaferðaþjónustu. Markmið hópsins er að Suðausturland verði í auknum mæli markaðssett sem áhugavert svæði til fuglaskoðunar. Vinna hópsins hefur leitt til þess að formlega verður stofnaður klasi til að stuðla að framgangi verkefnisins.

Tækifæri Suðausturlands eru mikil á þessu sviði, fuglalíf á svæðinu er áhugavert og náttúrufegurð skapar sérstakt umhverfi til fuglaskoðunar. Stór hluti svæðisins fellur undir skilgreind IBA svæði. Margvíslegur ávinningur felst í fuglaferðaþjónustu. Má þar einkum nefna viðskiptatækifæri í skipulagningu og sölu fugla og náttúruskoðunarferða, auk þess sem slík starfsemi myndi auka  tekjur ferðaþjónustunnar með betri nýtingu á jaðartíma, en fuglalíf á Suðausturlandi er áhugaverðast að vori og hausti. Fugla og náttúruskoðun myndi auka  þekkingu á umhverfinu og efla umhverfisvitund og svarar þannig ört vaxandi þörf fyrir fræðslutengda og sjálfbæra ferðaþjónustu.

Opinn stofnfundur félagsins fer fram fimmtudaginn 28. maí í Nýheimum á Höfn og hefst fundurinn klukkan 13:00. Á fundinum verður verkefnið kynnt og kosið í stjórn.

 

Allir áhugasamir eru hvattir til að kynna sér verkefnið og taka þátt í samstarfinu.