News
11.08.2009 - Súluungi í vandræðum
 

Í gær þegar ljósmyndari birds.is var á gangi á sandi í fjörum austan við Þvottárskriður gekk hann fram á súlu unga sem átti í umtalsverðum vandræðum.  Um gogg ungans var sem sagt vafinn eldrauður spotti, marga vafninga og í enda hans var lítill plastpoki.
Greiðlega gekk að ná unganum þrátt fyrir að hann reyndi að höggva aðeins frá sér, en þegar fuglinum var náð og byrjað var að losa um bandið varð hann mjög rólegur og beið þess bara rólegur að losna við bandið enda hefur það vafalaust verið búið að trufla hann við veiðarnar.  Líklegt má þykja að fuglinn hafi haldið að rauði spottinn væri æti og stungið goggnum í hann og fest hann með þessum afleiðingum.  Þó skal ekki útilokað að bandinu hafi verið komið fyrir af mannavöldum því það var vafið mjög reglulega og fast utan um gogginn, en við skulum þó vona að menn séu ekki að gera slíkt að leik sínum.
Fuglinn var svo frelsinu fegin eftir að spottinn hafði verið losaður og mun eflaust ná sér að fullu.  AS