21.09.2009 - Aðmíráll var það heillin!! |
Hún Irene okkar var nú fljót að bera kennsl á fiðrildið sem var að flögra hér um í morgun. Það mun heita aðmíráll og þekkist víða í Evrópu og Norður Afríku. Eftirfarandi upplýsingar fann ég inni á vef Náttúrustofu Norðausturlands. Um aðmírálsfiðrildi hefur Gísli Már Gíslason, prófessor við Líffræðiskor Háskóla Íslands, skrifað á vísindavef háskólans (http://visindavefur.hi.is/?id=2131). Þar var spurt: "Geta aðmírálsfiðrildin sem berast hingað með heitum vindi lifað af sumarið á íslenskum blómum eða eru þau of auðveld bráð?" Svar Gísla fer hér á eftir: "Fullvaxin fiðrildi lifa aðeins á blómasykri og ekki er ósennilegt að aðmírálsfiðrildi (Vanessa atalanta) geti sogið blómasykur úr blómum á Íslandi, sérstaklega stórum blómum í görðum. Náttúrulegt útbreiðslusvæði aðmírálsfiðrilda er í Suður-Evrópu, Norður-Afríku, á Mið-Atlantshafseyjum og í Norður-Ameríku. Aðalútbreiðslusvæði þeirra er í Norður-Afríku og þaðan fara þau í göngum norður til Evrópu. Þau geta tímgast á Bretlandseyjum og myndað sumarkynslóð, en lifa ekki af veturinn. Á Íslandi eru aðmírálsfiðrildi aðeins flækingar, fjölga sér ekki og lifa að sjálfsögðu veturinn ekki af, frekar en annars staðar í N-Evrópu. HDH |