13.04.2010 - Fuglafréttir ásamt vinsamlegum ábendingum |
Hér með er lesendum heimasíðunnar sem áhuga hafa á að fylgjast með fuglalífinu hér á svæðinu bent á að síðustu daga hafa verið færðar inn reglulegar fréttir af komu ýmissa fuglategunda hér inn á landið, sjá nánar á heimasíðu okkar http://djupivogur.is/fuglavefur/ Jafnframt eru áhugasamir hvattir til að tilkynna fuglasíðunni ef þeir sjá farfugla koma inn á svæðið sem ekki hafa þegar verið skráðir inn á fuglafréttirnar. Markmið fuglasíðunnar er m.a. að skrá og halda utan um komur fugla og hvað margar tegundir halda sig árlega hér á svæðinu. Hið ánægjulega er að á síðustu árum hafa nýjir landnemar fugla verið að hreiðra um sig á svæðinu og því mjög áhugavert að fylgjast með þróun fuglalífsins milli ára. Leiða má að því líkum að ástæða þessarar jákvæðu þróunar fuglalífsins hér í nágrenninu sé ekki síst sú að íbúarnir hafa tryggt með góðri umgengni um svæðið vöxt og viðgang fuglalífsins. Að síðustu eru íbúar sem og aðrir beðnir um að sýna fuglalífinu tilhlýðilega virðingu þegar vorið og varptíminn nálgast t.d. að sleppa ekki hundum lausum á svæðinu og eða valda fuglalífinu með öðrum hætti óþarfa ónæði sem truflað getur varp m.a. sjaldgæfra fuglategunda. Njótum því okkar frábæra útivistarsvæðis á Búlandsnesi áfram sem og hingað til í sátt við umhverfið og lífríkið á svæðinu. AS |