News
13.04.2010 - Fuglafréttir ásamt vinsamlegum ábendingum
 

Hér með er lesendum heimasíðunnar sem áhuga hafa á að fylgjast með fuglalífinu hér á svæðinu bent á að síðustu daga hafa verið færðar inn reglulegar fréttir af komu ýmissa fuglategunda hér inn á landið,  sjá nánar á heimasíðu okkar http://djupivogur.is/fuglavefur/  Jafnframt eru áhugasamir  hvattir til að tilkynna fuglasíðunni ef þeir sjá farfugla koma inn á svæðið sem ekki hafa þegar verið skráðir inn á fuglafréttirnar.  Markmið fuglasíðunnar er m.a. að skrá og halda utan um komur fugla og hvað margar tegundir halda sig árlega hér á svæðinu.  Hið ánægjulega er að á síðustu árum hafa nýjir landnemar fugla verið að hreiðra um sig á svæðinu og því mjög áhugavert að fylgjast með þróun fuglalífsins milli ára.  Leiða má að því líkum að ástæða þessarar jákvæðu þróunar fuglalífsins hér í nágrenninu sé ekki síst sú að íbúarnir hafa tryggt með góðri umgengni um svæðið vöxt og viðgang fuglalífsins.
Þeir sem ekki vita má til gamans geta þess að í mjög mörgum tilfellum eru þetta sömu fuglarnir sem eru að koma hér ár eftir ár t.d. hér í nágrenni vatnanna og velja þeir sér þá gjarnan sömu hreiðurstæðin hafi varp lukkast árinu áður. Þá er tímaskyn fuglanna ótrúlega nákvæmt en nokkur skráð dæmi eru fyrir því hér á heimasíðu fuglanna að þessir sömu fuglar eru að koma nákvæmlega upp á sama dag hér á svæðið milli ára.

Að síðustu eru íbúar sem og aðrir beðnir um að sýna fuglalífinu tilhlýðilega virðingu þegar vorið og varptíminn nálgast  t.d. að sleppa ekki hundum lausum á svæðinu og eða valda fuglalífinu með öðrum hætti óþarfa ónæði sem truflað getur varp m.a. sjaldgæfra fuglategunda. Njótum því okkar frábæra útivistarsvæðis á Búlandsnesi áfram sem og hingað til í sátt við umhverfið og lífríkið á svæðinu.  AS