News
05.08.2007 - Hvalreki við Hvaley
 

Fyrir skemmstu tilkynnti Kolbrún Arnórsdóttir íbúi á Djúpavogi undirrituðum að hvalur væri rekinn á land út á Búlandsnesi.
Við nánari athugun kom í ljós að þarna var stór Andanefja á ferð og má segja að hún hafi rekið upp á mjög viðeigandi stað en hvalurinn liggur sem sagt í fjörunni sunnan undir Hvaley. Andanefjan liggur töluvert hátt uppi í fjörunni og mun hræið því auðsjáanlega daga þarna uppi. Þetta er fremur stór hvalur eða 7 - 8 metrar að lengd. Búið er að tilkynna fundinn til Hafrannsóknarstofnunar, en stofnunin tekur á móti tilkynningum vegna hvalreka og annast rannskóknir á hvalhræjum ef þurfa þykir. Hvalhræið er orðið töluvert gamalt en er engu að síður mjög heillegt og alveg þess virði að skoða það þarna í fjörunni. Hér má sjá meðfylgjandi myndir af hvalnum.
Fjöldi andanefja (Hyperoodon ampullatus) á hafsvæðunum umhverfis landið yfir sumartímann er talin um 42.000 dýr. AS

 

 

 

 

Hvalurinn liggur þar sem rauði punkturinn er.