Í veðurblíðunni í dag sást skúfönd í Djúpavogshöfn, stórir heiðlóuhópar í Grunnasundi á Búlandsnesi, auk þess 10 sandlóur og 3 lóuþrælar. Þá voru rauðhöfðar og urtendur á Bóndavörðuvatni og brandendur við Breiðavog. Gríðarlegur fjöldi er nú af helsingjum í bland við grágæsir og heiðagæsir á túnunum við Þvottá og Hnauka í Álftafirði og segja menn að sjaldan hafi sést annar eins fjöldi þar á svæðinu. Töluvert af teistu hefur sest upp í bjarginu framan í Eyfreyjunestanganum, í dag voru þar um 50 fuglar og gætu allt eins verið mun fleiri, þar voru einnig bjargdúfur og sagði Eyjólfur bóndi á Framnesi að þær væru farnar að verpa, ein hefði flogið úr holu í gær og hefði egg oltið á eftir henni. AS
Meðfylgjandi myndir eru teknar af Sigurjóni Stefánssyni frá grágæsa og helsingjahópum í morgun af túnunum við Þvottá og Hnauka, þá voru einnig hreindýr á sama svæði og því má sannarlega segja að það hafi verið mikið líf á svæðinu í dag. Auk þessa fylgja með tvær myndir sem Sigurjón tók við Mývatn í síðustu viku af húsöndum.
|