Þá er fyrsta Landsmóti fuglaáhugamanna dagana 16 - 18 maí lokið á Djúpavogi. Skemmst er frá því að segja að fuglaskoðarar hrepptu frábært veður til fuglaskoðunar á laugardaginn. Þátttaka var með ágætum þótt vissulega hefði verið pláss fyrir fleiri, en alls tóku 16 manns þátt í mótinu yfir helgina. Á föstudagskvöldið fóru menn að tínast að en kl 21:00 setti Kristján Ingimarsson Landsmótið fyrir hönd fuglaáhugamanna á Djúpavogi. Þá voru heimamenn með kynningu á svæðinu í máli og myndum en Andrés Skúlason og Albert Jensson fóru yfir fuglaverkefnið birds.is og svo voru helstu fuglaskoðunarsvæðin kynnt.
Laugardagurinn var aðal dagurinn, en þá var skipulögð fuglaskoðun um stóran hluta af sveitarfélaginu sem stóð samfellt frá kl 08:00 - 19:30 síðan var sameiginleg kvöldmáltíð kl 20:00. Stoppað var upp úr hádeginu og grillað út við fuglaskoðunarhúsið á Búlandsnesi en Hótel Framtíð sá um þann hluta, en þar voru þeir Þórir og Kristján I grillmeistarar iðnir við kolann og mæltist grillveisla þessi sérlega vel fyrir meðal þátttakenda, enda frábært veður. Á laugardagskvöldinu voru síðan tveir aðilar með stutt erindi eftir kvöldverð en það voru þeir Einar Þorleifsson og Sigurður Ægisson. Dagskrá gærdagsins lauk svo um kl 23:00 og voru menn þá orðnir dauðþreyttir og jafnframt alsælir eftir vel heppnaðan dag. Má segja að dagurinn hefði ekki getað verið betri þar sem veðrið lék við hvurn sinn fingur allan daginn, hæfilegur hiti og frábært myndatökuveður.
Nánari lýsing á fuglaskoðunarferðinni á laugardaginn. Eftir árbít á Hótel Framtíð fórum í heimsókn til Eyjólfs Guðjónssonar að Framnesi en hann sýndi okkur m.a. fuglalífið í Eyfreyjunesinu, teistubyggðina og bjargdúfurnar en þessir fuglar verpa einmitt þarna í nesinu sunnanverðu. Með okkur í för var frændi Eyjólfs, náttúrubarnið frá Kvískerjum Hálfdán Björnsson sem skokkaði með hópnum um mela og móa og var hreint ekki hægt að sjá að þarna færi 81 árs maður á ferð. Hálfdán kann sannarlega skil á fleiru heldur fuglum og var sannarlega gaman og fræðandi að hafa hann með í þessari ferð þar sem hann lætur sér ekkert óviðkomandi þegar komið er út í guðs græna náttúruna, m.a. plöntur, skordýr, jarðfræði og hvaðeina.
Með Hálfdáni í för var Björn Gísli Arnarsson frá Hornafirði sem er öllum fuglaáhugamönnum að góðu kunnur, en Björn er einstaklega lunkinn við að finna fugla.
En frá Eyfreyjunesi var farið út á Búlandsnes, stoppað í fuglahúsinu og sjónaukar og myndavélar mundaðar allt í kringum vötnin og sefið þar á svæðinu og þar sáust allar þær andartegundir sem vitað er um á svæðinu. Því næst var haldið áfram út í Grunnasund þar sem vaðfuglarnir voru skoðaðir, þá var farið út í Hvaley og síðan Tögl og þar flugu m.a. rauðbrystingahópur rétt frá okkur. Frá Töglum var síðan rennt inn Hvaleyjarsund og út að Teisthólma, en þá var tekið hádegishlé og grillað við fuglaskoðunarhúsið.
Eftir hádegið var byrjað á að fara í skógræktina, en þar náðu menn að festa barrfinku á mynd, þar var líka fálki, smyrill, rjúpa og svartþröstur, auk algengari fugla. Frá skógræktinni var síðan stefnan sett á Álftafjörð og víða stansað við á leiðinni og kíkt út á vötn og leirur. Þá var keyrt niður á gamla slóðann rétt sunnan við Þvottá og þar niður að sjó. Þar mátti sjá mikla hópa af hrafnsöndum og sló Einar Þorleifsson á að þarna væri um 250 fuglar á ferð. Með hrafnsöndunum svömluðu 3 ungir æðarkóngar. Rétt í þann mund er við vorum að tygja okkur til baka, kallaði Björn G í hópinn þar sem hann stóð shopið sitt aðeins austan við okkur, en þá hafði hann rekið augun í tvær margæsir sem voru í fjörunni næst út undir Styrmishöfn. Í bakaleiðinni renndum við á Malvíkurhöfða, stundum bara kallaður höfði, en það svæði er niður svokölluðum Starmýrarteigum. Við stoppuðum í töluverðan tíma á höfðanum og skoðuðum svæðið, en þarna er mikið útsýni yfir Álftafjörðinn, auk þess sem þarna eru flæðimýrar miklar og óraskaðar og verða vonandi um allan aldur, þar sem þetta er geysilega mikilvægt búsvæði margra fuglategunda. Frá höfðanum var haldið heim á leið, keyrt rólega og stoppað stutt á nokkrum stöðum, m.a. skoðað tjaldshreiður í þjóðvegakantinum neðan við Stekkatún.
Þegar sest var niður að kvöldi og eftir að menn höfðu borið saman bækur sínar kom í ljós að alls höfðu verið taldar 61 fuglategund, sem telst mjög gott á einum og sama deginum.
Sunnudaginn 18 maí var svo haldið áfram, en þá voru færri í fuglaskoðarahópnum, en engu að síður var mjög gaman. Farið var út á Búlandsnes og skeiðendurnar myndaðar, þá var kíkt aðeins í húsagarða og hrafnslaupur skoðaður innan við Rakkaberg, þar eru komnir ungar. Eitt heiðlóuhreiður fannst og sagði Einar Þorleifsson að þetta væri mjög snemmt hjá lóunni. Síðan var farið í skógræktina og var restin af deginum nýtt þar. Í skógræktinni fundum við m.a. glókoll sem er afar lítill og skrautlegur fugl og er alveg sérlega erfitt að festa hann á mynd vegna þess hve kvikur hann er í hreyfingum.
Þá var heppilegt að einn besti og virtasti ljósmyndari landsins Daniel Bergman var með okkur í för og hann kunni ráð við því að ná til glókollsins. Daniel var nefnilega með geisladisk með sér með ótal fuglahljóðum og honum var auðvitað skellt í græjur og síðan var tíst glókollsins spilað og viti menn eftir eina mínútu eða svo kom hann fljúgandi grein af grein og smellti sér eldsnöggt rétt yfir spilaranum, en rétt í þann mund er við ætluðum að smella myndum af, stoppaði tækið og fuglinn farinn með það sama. Við Sigurður Æ biðum þarna spenntir með myndavélarnar, við náðum þó báðir ágætum svokölluðum staðfestingarmyndum sem við köllum gjarnan þegar illa tekst til að ná skýrum myndum, en þó hægt að greina fuglinn.
Á sunnudeginum náðum við að bæra við fjórum fuglategundum við listann, en auk glókollsins sá hinn snjalli fuglaskoðari Sigurjón Stefánsson landsvölu í húsagarði, þá sá Daniel Bergmann eina krákönd við Þvottárskriður og Einar Þorleifsson sá Auðnutittling í húsagarði. Lokaniðurstaða úr fuglategundatalningunni er því 65 tegundir á tveimur dögum.
Að síðustu skal þess hér getið að Einar Þorleifsson varaformaður fuglaverndarfélags Íslands, færði okkur nokkur fuglahús til að setja upp í skógræktinni og víðar. Hér með er Einari þakkað fyrir þessa skemmtilegu gjöf, en húsin eiga örugglega eftir að auka enn á og treysta búsetu hinna ýmsu smáfuglategunda hér.
Að loknu þessu Landsmóti fuglaáhugamanna á Djúpavogi viljum við nota tækifærið hér og þakka öllum er tóku þátt í mótinu og eða komu að því með öðrum hætti. Hótel Framtíð skal m.a. sérstaklega þakkað fyrir frábæra þjónustu. Er það mál manna og ekki síst gesta okkar að mótið hafi tekist sérlega vel og er vissulega gaman til þess að vita að allir hafi farið ánægðir heim eftir þennan viðburð.
Hér fylgja svo nokkrar myndir frá Landsmótinu um helgina. F.h. birds.is Andrés Skúlason
Í túnfætinum á Framnesi
Spekingar spjalla f.v. Eyjólfur Guðjónsson, Sigurður Ægisson og Hálfdán Björnsson
Andrés Skúlason, Ingimar Sveinsson - mynd Björn Gísli Arnarsson
Hilmar frá Reyðarfirði
Teistur myndaðar í gríð og erg á Eyfreyjunesinu
Einbeittir myndatökumenn næst Björn, Gerhard og Einar
Teista í Eyfreyjunesi - ljósm. Björn Gísli Arnarsson
Frændur Eyjólfur og Hálfdán spá í gróðurinn
Björn Gísli Arnarsson
Hálfdán bendir á tjaldsegg
Hilmar smellir af í gríð og erg
Eyfreyjunesið hvatt
Albert Jensson skannar sefið innan við Selabryggjur
Í Grunnasundi meðal vaðfugla
Steinunn Björg merkir við fugla í bæklingnum
Kíkt út á sjóinn úr Hvaley
Skógræktin skönnuð
Í Töglum Albert, Sigurður, Kiddi og Elva - Sigurður að mynda skvetturaufina í Töglum
Þarna má sjá undirritaðan við skvetturaufina í Töglum - mynd Björn Gísli Arnarsson
Í skógræktinni Diddi mundar sjónaukann, leitað að barrfinkunni
Hálfdán fræðir Steinunni Björgu um skófir
Þá var pælt í öðrum plöntum - þarna líklega sólberjarunna
Í skógræktinni
Albert kíkir á hóp rauðbrystinga sem fljúga hjá innan við Tögl
Út í Hvaleyjarsundi - Teisthólmi og Strandafjöll í bakgrunni
Siggi skoðar hvort hann hafi náð sendlingunum vel
Þá voru grillmeistararnir mættir, frábært grillveður og maturinn frábær
Kíkt af Selabryggju ytri
Í Álftafirði í fjörum vestan við Þvottá, kíkt á hrafnsendur og æðarkónga
Hrafnsendur í fjörum sunnan við Þvottá, myndir teknar af löngu færi eins og sjá má af gæðum mynda.
3 stk æðarkóngar og 250 stk hrafnsendur
Þá fann Bjössi margæsirnar út við Styrmishöfn
Daniel Bergmann og Sigurður Ægisson að spjalli inn í skógrækt, beðið eftir glókolli
Og þá birtist glókollurinn eldsnöggt, þegar hafði verið spilað fyrir hann nokkur tíst
Einar Þorleifsson varaformaður Fuglaverndarfélags Íslands setur upp fyrsta fuglahúsið í Skógrækt Djúpavogs hús fyrir þresti og fl.fugla
Þá var músarindilshúsið sett upp, vel falið
Undirritaður með maríuerluhús t.v. og starahús. þessi verða sett upp í bænum
Barrfinkan sem náðist á mynd í skógræktinni síðastliðinn laugardag, þær eru hrifnar af könglum. mynd AS
Könglarnir heilla
Þegar könglarnir hafa opnað sig nær barrfinkan fræjunum.
|