News
13.09.2008 - Kóngasvarmi
 

Í morgun kom ungur piltur hér á Djúpavogi, Davíð Örn Sigurðarson færandi hendi með stórt fiðrildi.
Við greiningu kom í ljós að hér er svokallaður kóngasvermir á ferð.
hér má sjá meðfylgjandi myndir af fiðrildinu og ýmsan fróðleik með sem tekin var af netinu. AS

Kóngasvarmi

 

Ýmsar tilkynningar um að sést hafi til kóngasvarma.  Margar spurningar vakna við þessa óvenjulegu sjón og hefur Jón Már Halldórsson, líffræðingur, svarað nokkrum þeirra á vísindavef Háskóla Íslands.  Eftirfarandi spurningar og svör ásamt meðfylgjandi mynd er að finna á vísindavefnum.

"Hvernig fiðrildi er kóngasvarmi? Er það eitrað eða hættulegt? Lifir það á Íslandi?
Kóngasvarmi (Agrius convolvuli, e. Convolvulus Hawk-moth), stundum nefnt kóngafiðrildi, er ekki hluti af íslenskri skordýrafánu en berst hingað stundum sem flækingur.

Kóngasvarmar eru næturdýr og eru þess vegna á ferli eftir að skyggja tekur. Þeir lifa á blómasafa eins og önnur fiðrildi og eru afar stórir miðað við íslensk skordýr, vænghafið getur verið 9-13 cm. Kóngasvarmar geta haldið sér kyrrum á lofti fyrir framan blóm og stinga löngum rana inn í þau til að sjúga blómasafann. Þeir þurfa því ekki að setjast á blómið og minna þannig á fugla, sérstaklega kólibrífugla. Fiðrildaættin sem kóngasvarminn tilheyrir, svarmaætt (Sphingidae), er í samræmi við það kölluð „Hummingbird moth“ á ensku. Kóngasvarmar eru með öllu skaðlausir og er engin ástæða til að hræðast þá.

Kóngasvarmi svífur framan við blóm líkt og kólibrífugl. Sjá mynd.

Þau dýr sem finnast hér á landi hafa að öllum líkindum borist frá Evrópu. Tíðafar í álfunni hefur verið afar hagstætt fyrir kóngasvarmann og suðlægir vindar undanfarnar vikur hafa flutt fjölda einstaklinga hingað norður eftir. Búsvæði kóngasvarmans er víðáttumikið, það nær til Afríku, Asíu, Eyjaálfu auk Suður-Evrópu. Kóngasvarmar ferðast árstíðabundið norðar í Evrópu, meðal annars til Bretlandseyja, en fjölga sér þar ekki. Borist hafa tilkynningar um þessi fiðrildi víða að af landinu eftir 9. ágúst, svo sem frá Stykkishólmi, Blönduósi, höfuðborgarsvæðinu, Selfossi og Neskaupsstað."

Að auki kom fram í Morgunblaðinu, laugardaginn 23. ágúst sl. að fiðrildið hafi sést á Vestfjörðum og starfsmaður Náttúrustofu Vesturlands sá eitt á sunnanverðu Snæfellsnesi.  Einnig hefur Náttúrustofan fregnir af því að dauður kóngasvarmi hafi fundist á Rifi á Snæfellsnesi







 




Kóngasvarminn sem Davíð Örn fann


Hér má gera sér grein fyrir stærðinni